Jobs in Iceland
HLUTVERK OG VERKEFNI VINNUMÁLASTOFNUNAR
Vinnumálastofnun heyrir undir velferðarráðherra og fer m.a. með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Vinnumálastofnun starfar samkvæmt lögum nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og lögum nr. 54/2006 um Atvinnuleysistryggingar. Markmið laganna er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði, auk þess sem lögunum er ætlað að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.
Vinnumálastofnun rekur 8 þjónustuskrifstofur í kringum landið auk þriggja smærri útibúa, þar sem veitt er öll almenn þjónusta við atvinnuleitendur, skráning, mat á færni, ráðgjöf og úrræði og vinnumiðlun auk samvinnu við aðra þjónustuaðila um úrræði og vinnumarkaðsaðgerðir.
Velferðarráðherra skipar jafnframt tíu manna stjórn Vinnumálastofnunar að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn, sem skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Þá skipar velferðarráðherra sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð sem skulu vera hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumálastofnunar til ráðgjafar um skipuilag og val á vinnumarkaðsúrræðum.